Thursday, 14 February 2008

Bloggleysa

Vá. Ég veit ekki hvað skal segja. Eða. Jú jú, ég hef sosum ýmislegt að segja. En bloggþörfin er slokknuð. Í bili að minnsta kosti. Get ekki útskýrt af hverju.

Einhvern tíma kem ég aftur.

Eða ekki.

Bless bless.

Eða ekki.

Monday, 4 February 2008

Mask

Fréttir frá æskuslóðunum kveikja ljós í huganum. Í dag er bolludagur og eins og útvarp og sjónvarp hafa fjallað um þá klæðast ísfirsk börn grímubúningum í dag og ganga hús úr húsi og reyna á gjafmildi íbúa bæjarins. Í dag er maskadagur á Ísafirði. Áratugagömul hefð sem þeir fyrir vestan eru ekkert að breyta þótt annað tíðkist annars staðar. Gott hjá þeim.

Það var venja að halda grímuball í skólanum að kvöldi bolludags. Ég var eitthvað leiður þetta tiltekna ár. Vissi ekki hvað ég ætti að vera, datt ekkert skemmtilegt í hug. Það var Heiðar bróðir minn sem kom til hjálpar. Þótt ég sé löngu hættur að líta upp til Heiðars, enda langt síðan ég varð hávaxnari en hann, þá var hann vissulega mín helsta fyrirmynd á þessum tíma. Mér finnst Heiðar mjög kúl í dag, en þó ekkert í samanburði við álit mitt á honum þá. Ég veit ekki enn hvort Heiðar gerði það sem hann gerði viljandi. Samkvæmt reglunni fór ég auðvitað í taugarnar á honum, verandi litli bróðir og allt það. Svo maður spyr sig stundum.

Heiðar kom með frábæra hugmynd. Ég yrði pönkari. Hann átti leðurjakka sem hann lánaði mér. Við rifum gallabuxur og svo fór ég bol, gott ef ekki með CRASS áletrun framan á. Og svo var það punkturinn yfir i-ið, þetta litla smáatriði sem gerði gæfumuninn, og skilja myndi á milli mín og hinna sem ekki ynnu verðlaunin fyrir besta búninginn: Heiðar litaði á mér hárið! Hann átti reyndar ekki þartilgert sprey, en dó ekki ráðalaus. Hann sótti munangursmeðal inn á bað og hellti því í hárið á mér. Fjólublátt hár. Dökkfjólublátt.

Munnangursmeðal er ekki ætlað til að lita hár. Ég var með fjólublátt hár langt fram á vor. Reyndar varð það fölgrænt í lokin, ekki ósvipað lit á myglu. Einhver litafræði sem ég þekki ekki.

Og þessi skemmtilega minning kviknaði í huganum rétt í þessu.

Saturday, 2 February 2008

Söngur og dans

Það er laugardagskvöld. Þótt ég sé allur af vilja gerður get ég ekki horft á myndina sem er í sjónvarpinu. Dóttir mín hins vegar, hin 7 ára gamla tilvonandi dans- og söngstjarna Stefanía Arna getur ekki haft augun af skjánum. Þetta er stórkostleg mynd að hennar mati. The cheetah girls 2. Jebb. Númer 2. Ég býst við að fyrsta myndin hafi hitt svo hressilega í mark að framhald var óhjákvæmilegt. Kvartettinn er nú staddur í Barcelona, þar sem þær taka þátt í alþjóðlegri tónlistartalentakeppni. Þegar þetta er skrifað eru um það bil 20 mínútur búnar af myndinni. Ég geri fastlega ráð fyrir að þær sigri. Ef ekki læra þær alla vega heilmikið af þátttökunni og verða sterkari manneskjur og betri listamenn en áður.

Annars er Arna farin að hafa vaxandi áhuga á rappi. Spurning um að nota tækifærið og leiða hana lúmskt á hlustunarvænni brautir. Veit þó ekki hvort hún sé til í eitthvað hardkor. Með rappi á hún meira við fjórar gullfallegar stelpur í bleikum fötum, með gloss og flott hár sem í miðju lagi detta úr fljúgandi rödduðum línum í það að tala eina og eina setningu í takti.

Well. So be it.