Monday 4 February 2008

Mask

Fréttir frá æskuslóðunum kveikja ljós í huganum. Í dag er bolludagur og eins og útvarp og sjónvarp hafa fjallað um þá klæðast ísfirsk börn grímubúningum í dag og ganga hús úr húsi og reyna á gjafmildi íbúa bæjarins. Í dag er maskadagur á Ísafirði. Áratugagömul hefð sem þeir fyrir vestan eru ekkert að breyta þótt annað tíðkist annars staðar. Gott hjá þeim.

Það var venja að halda grímuball í skólanum að kvöldi bolludags. Ég var eitthvað leiður þetta tiltekna ár. Vissi ekki hvað ég ætti að vera, datt ekkert skemmtilegt í hug. Það var Heiðar bróðir minn sem kom til hjálpar. Þótt ég sé löngu hættur að líta upp til Heiðars, enda langt síðan ég varð hávaxnari en hann, þá var hann vissulega mín helsta fyrirmynd á þessum tíma. Mér finnst Heiðar mjög kúl í dag, en þó ekkert í samanburði við álit mitt á honum þá. Ég veit ekki enn hvort Heiðar gerði það sem hann gerði viljandi. Samkvæmt reglunni fór ég auðvitað í taugarnar á honum, verandi litli bróðir og allt það. Svo maður spyr sig stundum.

Heiðar kom með frábæra hugmynd. Ég yrði pönkari. Hann átti leðurjakka sem hann lánaði mér. Við rifum gallabuxur og svo fór ég bol, gott ef ekki með CRASS áletrun framan á. Og svo var það punkturinn yfir i-ið, þetta litla smáatriði sem gerði gæfumuninn, og skilja myndi á milli mín og hinna sem ekki ynnu verðlaunin fyrir besta búninginn: Heiðar litaði á mér hárið! Hann átti reyndar ekki þartilgert sprey, en dó ekki ráðalaus. Hann sótti munangursmeðal inn á bað og hellti því í hárið á mér. Fjólublátt hár. Dökkfjólublátt.

Munnangursmeðal er ekki ætlað til að lita hár. Ég var með fjólublátt hár langt fram á vor. Reyndar varð það fölgrænt í lokin, ekki ósvipað lit á myglu. Einhver litafræði sem ég þekki ekki.

Og þessi skemmtilega minning kviknaði í huganum rétt í þessu.

1 comment:

Anonymous said...

Mannstu þetta ennþá.... Ég er enn að vinna mig út úr þeim ósköpum sem ég lét yfir þig ganga. EN þú varst nú lang flottastur á grímuballinu, var það ekki?

Heiðar