Wednesday, 30 January 2008

Ella sem borgarstjóra


Áður en ég fór að sofa í gærkveldi skellti ég mér á netið og horfði á þáttinn sem svo margir eru að tala um. Það er ekki ofsögum sagt að Elli minn fer þar á kostum, enda ekki við öðru að búast. Elli er einstaklega flínkur leikari, og skrýtið að ekki hefur sést meira af honum á sviði eða skjá. Hver veit nema að það breytist með þessu.

Annars veit ég ekki almennilega hvað ég á að segja um þessa borgarstjórnardellu. Skrípaleikurinn er algjör og vart hægt að saka Spaugstofumenn um ýkjur. Oft hefur manni jú blöskrað yfirgangur þeirra sem eiga að stjórna landi og borg. Hér er ákveðnum toppi náð, toppi sem þó er ekki klifinn í fyrsta sinn. Þannig eru íslensk stjórnmál. Sorglegt en satt. Ég spyr mig: Og hvað svo? Það vita allir hvað þetta er fáranlegt. Það vita allir hvað þetta er siðlaust.
Erum við, þegnar þessa lands, þrátt fyrir það nauðbeygð til að kyngja þessum alltof stóra bita og láta, eins og svo oft áður, sem ekkert sé?

Stundum langar mig svo mikið að flýja þetta land.

Tuesday, 29 January 2008

Aftur hér

Ég er kominn aftur frá Berlín. Ég læri seint. Það var svo sem ekki mikið sem ég hafði hug á að framkvæma úti, en þó eitt og annað. Kaupa dót. Ég fór eins að nú og ég er vanur og beið með allt fram á síðustu stund. Var talsvert á ferðinni í gær, lest úr lest, hverfi úr hverfi.

Dvölin úti var dásamleg. Vegna þess að hún Guðrún er svo dásamleg. Og ég var mikið með henni.

Framundan eru skrif. Í febrúar ætla ég auk þess að leika í seríu fyrir sjónvarp. Grínþættir sem lofa góðu. Í mars hefjast tökur á kvikmyndinni BRIM. Svo er söngleikurinn ÁST á leið upp á svið í London. Enskt kast, en Gísli Örn leikstýrir og ég verð honum til halds og trausts.

Spennandi.

Lína

Lína er 8 ára grísk tík. Helming æfi sinnar hefur hún eytt með hjartagæskunni henni Sonju. Sonja fann hana á ferð sinni um Grikkland. Fyrri eigandi Línu fannst gott að eiga hund. Hann barði hana sundur og saman þegar illa lá á honum. Að lokum fékk hann nóg af henni og ákvað að losa sig við hana. Og hvernig lógar maður hundi öðruvísi en að hengja hann upp í hæsta gálga. Það var þar sem Sonja, á einhvern undraverðan súperhetju hátt, skarst í leikinn.

Núna lifir Lína góðu lífi, og hefur gert um alllangt skeið. Sonja elskar Línu. Hún fer með hana minnst einu sinni, oft tvisvar á dag í góðan göngutúr. Hún elur hana á eðal fóðri og sýnir henni ómælda ást og umhyggju. Lína getur þó seint kallast hress hundur. Hún er þunglynd og tekur meira að segja lyf vegna þessa. Hún hegðar sér alltaf eins og hún eigi mjög bágt. Hugsanlega líður henni þannig. En hugsanlega hefur hún komist að því að fólk vorkennir sorgmæddum hundum og er vísara með að lauma að henni mola. Ég gaf henni harðfisk. Lína elskar harðfisk. Henni finnst ég frábær.

Thursday, 24 January 2008

Hobbs

Ég gleymdi myndavélinni minni. Það er soldið leiðinlegt því mig langar mikið til að birta mynd af nýja vini mínum, honum Hobbs. Ekki hefði mér dottið í hug að ég ætti einhvern tíma eftir að hitta blindan kött. Hobbs fæddist með ónýt augu en að öðru leyti var hann mjög hress og einhver tók ákvörðun um að loka fyrir augu hans og leyfa honum, þrátt fyrir fötlun sína að njóta þess sem lífið býður upp á. Nú er Hobbs orðinn fullorðinn. Hann þekkir orðið vel til í íbúðinni, labbar ekki á veggi, heldur röltir tignarlega um ganginn og herbergin. Baðherbergið er í uppáhaldi og honum er gróflega misboðið ef einhver af íbúunum fer þangað inn án þess að hann fái að koma með. Í fyrstu sat ég og sinnti þörfum mínum við ámátlegt kattarvæl. Núna hleypi ég honum inn áður en ég loka og læsi. Engin hætta á að Hobbs sjái eitthvað sem hann ætti ekki að sjá. Hobbs er, þrátt fyrir blinduna, haldinn klifuráráttu kattarins. Það er mikilvægt að skilja ekki herbergi eftir opin þegar hann er einn í íbúðinni því þá fer hann þangað inn og hreinsar til í hillum og á borðum. Allt fer í gólfið og brothættir hlutir brotna.

Í næstu færslu segir af henni Línu, en saga hennar er ekki síður merkileg.

Og einhvern tíma segi ég kannski eitthvað um hana Guðrúnu.

Tuesday, 22 January 2008

Kominn

Ég bíð lesendur hjartanlega velkomna. Ekki eyði ég fyrstu færslunni á hinu nýja svæði í að fjalla um óvænt upphlaup í borgarstjórn og allt ruglið í kringum það. Leyfi mér þó að spyrja: Er ekki allt í lagi??

Það er allt í lagi með mig. Ég er í Berlín. Kom í gærkveldi og ætla að eyða næstu viku hér. Í íbúðinni þar sem ég el manninn, býr einnig krónískt kvíðasjúkur hundur sem heitir Lína og blindur köttur sem heitir Hobbs. Þar býr líka Sonja sem er að klára dýralækninn í vor og Mats sem er að útskrifast sem ljósmyndari á næstu vikum.

Þar býr líka hún Guðrún.