Tuesday 29 January 2008

Lína

Lína er 8 ára grísk tík. Helming æfi sinnar hefur hún eytt með hjartagæskunni henni Sonju. Sonja fann hana á ferð sinni um Grikkland. Fyrri eigandi Línu fannst gott að eiga hund. Hann barði hana sundur og saman þegar illa lá á honum. Að lokum fékk hann nóg af henni og ákvað að losa sig við hana. Og hvernig lógar maður hundi öðruvísi en að hengja hann upp í hæsta gálga. Það var þar sem Sonja, á einhvern undraverðan súperhetju hátt, skarst í leikinn.

Núna lifir Lína góðu lífi, og hefur gert um alllangt skeið. Sonja elskar Línu. Hún fer með hana minnst einu sinni, oft tvisvar á dag í góðan göngutúr. Hún elur hana á eðal fóðri og sýnir henni ómælda ást og umhyggju. Lína getur þó seint kallast hress hundur. Hún er þunglynd og tekur meira að segja lyf vegna þessa. Hún hegðar sér alltaf eins og hún eigi mjög bágt. Hugsanlega líður henni þannig. En hugsanlega hefur hún komist að því að fólk vorkennir sorgmæddum hundum og er vísara með að lauma að henni mola. Ég gaf henni harðfisk. Lína elskar harðfisk. Henni finnst ég frábær.

No comments: