Thursday 24 January 2008

Hobbs

Ég gleymdi myndavélinni minni. Það er soldið leiðinlegt því mig langar mikið til að birta mynd af nýja vini mínum, honum Hobbs. Ekki hefði mér dottið í hug að ég ætti einhvern tíma eftir að hitta blindan kött. Hobbs fæddist með ónýt augu en að öðru leyti var hann mjög hress og einhver tók ákvörðun um að loka fyrir augu hans og leyfa honum, þrátt fyrir fötlun sína að njóta þess sem lífið býður upp á. Nú er Hobbs orðinn fullorðinn. Hann þekkir orðið vel til í íbúðinni, labbar ekki á veggi, heldur röltir tignarlega um ganginn og herbergin. Baðherbergið er í uppáhaldi og honum er gróflega misboðið ef einhver af íbúunum fer þangað inn án þess að hann fái að koma með. Í fyrstu sat ég og sinnti þörfum mínum við ámátlegt kattarvæl. Núna hleypi ég honum inn áður en ég loka og læsi. Engin hætta á að Hobbs sjái eitthvað sem hann ætti ekki að sjá. Hobbs er, þrátt fyrir blinduna, haldinn klifuráráttu kattarins. Það er mikilvægt að skilja ekki herbergi eftir opin þegar hann er einn í íbúðinni því þá fer hann þangað inn og hreinsar til í hillum og á borðum. Allt fer í gólfið og brothættir hlutir brotna.

Í næstu færslu segir af henni Línu, en saga hennar er ekki síður merkileg.

Og einhvern tíma segi ég kannski eitthvað um hana Guðrúnu.

1 comment:

Anonymous said...

Sæll Víkingur,
mikið er ég ánægð, að þú skulir segja Guðrúnu, en ekki Guðrúni, ég kann svo miklu betur við það. Það var annars mjög gaman að fylgjast með sögunum þínum. Hafðu það annars sem allra best,
kveðja,
Helga (Siljumamma)